Maradona lést af völdum hjartaáfalls í Buenos Aires í nóvember 2020. Hann var sextugur að aldri. Þegar hann lést var hann að jafna sig á skurðaðgerð vegna blóðtappa í heila fyrr í mánuðinum.
Nefnd sérfræðinga sem var skipuð til að rannsaka dauða Maradona komst að þeirri niðurstöðu að læknar og hjúkrunarfræðingar sem önnuðust knattspyrnumanninn fyrrverandi hafi hagað sér á óviðeigandi, ófullnægjandi og skeytingarlausan“ hátt. Maradona hefði átt betri líkur á að lifa af hefði hann fengið betri umönnun. Hann hafi sýnt skýr merki um veruleg óþægindi hálfum sólarhring áður en hann lést.
Þau ákærðu eru Leopoldo Luque, taugaskurðlæknir og persónulegur læknir Maradona, tveir sálfræðingar, tveir læknar, tveir hjúkrunarfræðingur og yfirmaður þeirra. Þau neita öll að bera ábyrgð á dauða Maradona, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Fólkið gæti átt allt frá átta til tuttugu og fimm ára fangelsisvist yfir höfði sér verði það fundið sekt um manndráp af gáleysi. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöldin yfir þeim hefjast. AP-fréttastofan segir að líklega verði það ekki fyrr en undir lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.