Umsátursástand myndaðist í Hafnarfirði í dag eftir að skotið var á feðga í bíl fyrir utan leikskóla. Árásarmaðurinn, sem er íbúi í fjölbýlishúsi við leikskólann, gaf sig fram nokkrum klukkutímum síðar.
Það var á áttunda tímanum í morgun að lögreglu barst tilkynning um skotárásina. Þá hafði karlmaður á sjötugsaldri sem býr í fjölbýlishúsi við Miðvang skotið á tvo bíla frá íbúð sinni að svo virðist.
Annar bílanna stóð á bílastæði við fjölbýlishúsið en hinn á stæðinu beint á móti sem tilheyrir leikskóla. Í þeim bíl voru faðir og sex ára gamall sonur hans. Faðirinn var á leið með soninn á leikskólann. Þegar fréttastofa ræddi við hann í dag treysti hann sér ekki í viðtal en sagðist í miklu áfalli.
Feðgarnir búa ekki við Miðvang og þekkja ekki árásarmanninn. Það virðist því tilviljun að skotið var á þá. Tugir lögreglu- og sérveitarmanna mættu fljótlega á staðinn og girtu af stórt svæði.

„Það eru sautján börn á leikskólanum, tuttugu og einn starfsmaður og þau eru bara hlémegin í húsinu eins og maður kannski orðar það. Eru algjörlega örugg og var verið að koma með mat til þeirra núna. Síðan varðandi íbúa þá hérna í rauninni fær enginn að fara út úr þessu fjölbýlishúsi. Þannig að fólk er bara þar inni og gert að halda sig þar,“ sagði Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi í dag.
Lögreglumenn dreifðu sér um stigaganginn og notaðir voru drónar og róbótar á meðan á aðgerðinni stóð. Það var svo upp úr hádegi sem maðurinn gaf sig fram eftir samningaviðræður við lögregluna. Íbúum í húsinu var mörgum mjög brugðið en í húsinu býr að mestu eldra fólk.
„Ég er enn skjálfandi bara af hræðslu sko af því maður veit ekkert. Maður verður svo rosalega óöruggur og fær ekkert að vita neitt,“ sagði Berglind Bjarney Ásgeirsdóttir íbúi í húsinu eftir að aðgerðum lögreglunnar lauk.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var riffill líklega notaður í árásinni en skotárásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Ákvörðun um gæsluhaldvarðhaldskröfu eða önnur úrræði gagnvart manninum liggur ekki fyrir á þessari stundu. Mildi þykir að feðgana hafi ekki sakað.
„Maður er náttúrulega bara guðs lifandi feginn að enginn hafi skaðast í þessu útkalli og í þessu verkefni,“ segir Skúli.