Handbolti

Evrópu­meistararnir frá 2017 og 2019 að öllum líkindum ekki með á næsta ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fjárhagsvandræði Vardar Skopj eru mikil. Félagið gæti verið bannað frá keppnum á vegum EHF á næstu leiktíð.
Fjárhagsvandræði Vardar Skopj eru mikil. Félagið gæti verið bannað frá keppnum á vegum EHF á næstu leiktíð. Axel Heimken/Getty Images

Það virðist sem stórliðið Vardar Skopje frá Norður-Makedóníu, Evrópumeistarar 2017 og 2019, verði ekki með í Meistaradeild Evrópu í handbolta á næsta ári vegna fjárhagsvandræða.

Á vef Balkan-Handball er greint frá því að fjárhagsvandræði stórliðs Vardar séu til skoðunar hjá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF. 

Til stendur að útiloka Vardar frá keppnum á vegum EHF á næstu leiktíð en Vardar hefur verið með sterkari liðum Evrópu undanfarin ár og vann Meistaradeildina tvívegis á þriggja ára tímabili frá 2017 til 2019.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem EHF stendur í hótunum sem þessum í garð Vardar en fyrir ári síðan var félagið í sömu vandræðum. Félagið skuldaði EHF þá dágóða summu vegna þátttöku sinnar í Meistaradeild Evrópu.

Þá náði Vardar að semja við EHF en nú ári síðar er sama staðan komin upp. Samkvæmt frétt Balkan-Handball vill sambandið – líkt og í fyrra – fá eina milljón evra sem skilyrði fyrir þátttöku í Meistaradeild Evrópu.

Kórónufaraldurinn fór illa með Vardar sem hefur átt í gríðarlegum fjárhagsvandræðum undanfarin ár. Búist er við að EHF tilkynni ákvörðun sína í málinu undir lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×