Um þrjátíu liggja inni á Landspítala með eða vegna Covid-19 og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að nokkrir til viðbótar séu inniliggjandi á heilbrigðisstofnunum annars staðar á landinu.
Enginn er sagður á gjörgæslu vegna veirunnar en að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans, létust tveir vegna covid um helgina.
Flestir inniliggjandi eru yfir sjötugu þar sem eldra fólk er líkt og áður berskjaldaðra fyrir alvarlegum veikindum. Í ljósi þess og aukinnar útbreiðslu fundar sóttvarnalæknir í dag með fulltrúum hjúkrunarheimila um stöðuna.
„Það sem við munum leggja áherslu á eru sóttvarnir og sýkingavarnir og jafnvel grímunotkun og takmarkanir líkt og Landspítalinn hefur tekið upp,“ segir Þórólfur.
Á Landspítalanum hafa heimsóknir verið takmarkaðar við einn gest í einu en Þórólfur segir hjúkrunarheimilanna að ákveða hvort það verði einnig gert þar.
„Við bendum þeim bara á hvernig staðan er og mikilvægi þess að vernda þennan viðkvæma hóp og nota þau tæki og tól sem við höfum til þess. En síðan er það hjúkrunarheimilanna að ákveða hvernig þau framkvæma það.“

Eldra fólk og viðkvæmir eru hvött til þess að fara í fjórðu sprautuna sem Þórólfur segir veita þeim betri vernd. Þátttakan hefur ekki verið góð en reynt verður að gera átak í því og verður það meðal annars rætt á fundinum.
„Núna fyrir helgina var hún allavega þannig að þeir sem eru á aldrinum áttatíu til níutíu ára voru með tuttugu og fimm prósent þátttöku en hún var tuttugu prósent hjá níutíu ára og eldri.“
Þrátt fyrir að nýtt undirafbrigði ómíkron sé í dreifingu er enn lítið um endursmit og fyrri sýkingar virðast veita nokkuð góða vernd. Þórólfur segir útbreiðslu veirunnar slíka að almennar takmarkanir séu ekki til skoðunar þar sem þær þyrftu að vera mjög strangar.
Hann hvetur þó fólk til að fara varlega.
„Sérstaklega þá sem eru viðkvæmir; forðast mannmarga staði, nota grímur þegar það á við, passa upp á handspritt. Maður sér að fólk er mikið til hætt að hugsa um þetta og fólk er farið að kjassast og faðmast eins og það gerði áður og það þarf að varast sérstaklega að gera það með viðkvæmum einstaklingum og eldra fólki til að gera þetta eins bærilegt og hægt er fyrir þau.“ segir Þórólfur.