Innlent

Greiða for­ráða­mönnum barna á bið­lista eftir leik­skóla­plássi

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn að leik á leikskóla. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Börn að leik á leikskóla. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Forráðamenn barna sem eru tólf mánaða og eldri og eru á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ geta greitt frá bæjarfélaginu þar til börn þeirra hafa fengið pláss. Greiðslurnar geta numið allt að rúmum 90.000 krónum.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti greiðslurnar á fundi sínum í dag. Forráðamenn barna geta með reglunum sótt um þátttöku bæjarins í kostnaði vegna vistunar barns þar til því býðst vistun á leikskóla í bænum svo lengi sem þeir njóti ekki annarra niðurgreiðslna, að því er segir í tilkynningu frá Garðabæ.

Reglunum er sagt ætlað að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til barn fær vistun í leikskóla. Börn sem eru orðin tólf mánaða gömul og hafa ekki fengið boð um vistun falla undir skilgreiningu reglnanna.

Greiðslurnar miðast við almenna niðurgreiðslu hjá dagforeldrum fyrir átta stunda vistun, 90.269 krónur á mánuði. Þær falla niður þegar barni býðst leikskóladvöl í Garðabæ.

Næst úthlutar bærinn leikskólaplássum í vikunni eftir verslunarmannahelgi. Þá verður börnum sem eru fædd í júní, júlí og ágúst 2021 boðin dvöl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×