Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þakkaði fjárlagnefnd fyrir samstarfið, ekki síst vegna breytingartillaga sem ríkisstjórnin sendi á nefndina til að sporna við áhrifum verðbólgu.
Þá sagði hann að þegar þessi fjármálaáætlunin væri skoðuð í heild sinni sæist að það væri bjart framundan.
Stjórnarandstaðan ósammála meirihlutanum
Stjórnarandstöðuþingmenn gátu ekki tekið undir orð fjármálaráðherra. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að þingskjalið væri ekki eins og það ætti að vera samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það vantaði ýmislegt til að þing og þjóð vissu hver stefna stjórnvalda væri til næstu fimm ára.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði um gamaldags ríkisfjármálapólitík að ræða. Það væri kerfislægur halli á ríkissjóð af því tekjuhliðin væri brostin og í stað þess að styrkja tekjuhliðina þá væri það einbeitt stefna ríkisins að veikja getu hins opinbera til að sinna grunnþjónustu.
Að lokum tók hann fram að hann ætlaði að ýta sérstaklega fast á rauða takkann.
Þorgerður Katrín Gunnarsson, þingmaður Viðreisnar, sagðist ekki muna eftir því, fyrr en nú, að nokkur ríkisstjórn hafi ákveðið í byrjun kjörtímabils að halda áfram að safna skuldum og skilja vandann eftir fyrir næstu ríkisstjórn, eins og margir sérfræðingar hefðu bent á. Það væri erfitt að finna hliðstæðu af þessu tagi í nokkrum öðrum vestrænum löndum.