Innlent

Þungt högg að missa heilan dag en Seyð­firðingar standa keikir

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Davíð Kristinsson hótelstjóri sat einn á tómum veitingastað sínum þegar fréttastofa náði tali af honum. 
Davíð Kristinsson hótelstjóri sat einn á tómum veitingastað sínum þegar fréttastofa náði tali af honum. 

Rýma þurfti hótel og fresta opnun veitingastaðar á Seyðisfirði í dag eftir vatnsrör fór í sundur í bænum. Hótelstjóri segir þetta mikið bakslag núna þegar ferðasumrið er að fara af stað en að Seyðfirðingar séu öllu vanir. Þetta er bara enn eitt partíið sem að okkur er boðið í og við mætum, segir hann um vatnsöflin á Seyðisfirði.

Seyðfirðingar voru án vatns bróðurpartinn af deginum eftir að aðrennslispípa við Fjarðaselsvirkjun fór í sundur og vatnslögn Seyðisfjarðar rofnaði í morgun en vatn var komið aftur á skömmu eftir klukkan sjö í kvöld. 

Vatnsleysið hafði áhrif á marga í dag en áhrifin voru þó ef til vill mest hjá hótelinu og veitingastöðum í bænum.

„Staðan hjá okkur er áhugaverð,“ sagði Davíð Kristinsson, hótelstjóri Öldunnar, léttur í bragði þegar fréttastofa náði tali af honum fyrr í dag. „Við erum komin aftur í rómantíkina og erum að ná í vatn í lækinn og það flækir allt í nútímasamfélagi.“

Loka þurfti Hótel Öldu en hótelið var fullt, enda ferðasumrið byrjað á fullu, og þurftu þau að finna fólki gistingu annars staðar á Austurlandi. Þá þurfti að fresta opnun nýs veitingastaðar, Norðaustur, en Davíð segir það helst sárt fyrir gestina.

„Það er aðallega það, í staðinn fyrir að geta veitt fólki gleði þá fær það vonbrigði. Það er erfitt og leiðinlegt en það er bara ekkert við þessu að gera, hlutir bila og það þarf bara að bregðast við því,“ segir hann.

Hann segir það þungt að missa heilan dag úr rekstrinum á miðju sumri en tímabilið er stutt fyrir. Þá fylgir því tilheyrandi kostnaður sem þyngir róðurinn. Þrátt fyrir allt er hann þó bjartsýnn á framhaldið.

„Þá verður þessi dagur öðruvísi en morgundagurinn og það er alltaf gaman, þó að þetta hafi ekki verið það sem ég ætlaði mér,“ segir Davíð.

Vatnsöflin hafa herjað á Seyðfirðinga undanfarin ár með aurskriðunum og gætu því margir talið að íbúar hafi tekið út sinn skammt. Davíð tekur undir það en segir þau áfram standa keik.

„Maður hefði haldið það, en við ráðum bara við þetta eins og allt annað. Þetta er bara enn eitt partíið sem að okkur er boðið í og við mætum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×