Sigurður greinir frá þessu í færslu á Facebook, þar sem hann segist standa á ákveðnum tímamótum. Sigurður var oddviti og eini bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili en náði ekki endurkjöri í nýafstöðunum bæjarstjórnarkosningum.
Í færslunni vísar Sigurður til alvarlegra veikinda Árna Þórðar Sigurðssonar, sonar hans og Hólmfríðar Þórisdóttur.
„Eins og margir vita lentum við hjónin í miklu áfalli þegar sonur okkar varð lífshættulega veikur mánuðum saman og sér ekki fyrir endann á. Svona áfall gjörbreytir hugsun manns og lífið og lífsgæði fara í fremsta þrep. En þó áföllin dynji yfir mann, þá verður maður líka að reyna að halda áfram,“ skrifar Sigurður.
Segist hann hafa farið að spegla sig við flokkanna og fundið fyrir því að hann vildi segja manngæsku og mannlegar þarfir í fyrsta sæti, eins og hann kemst að orði.
„Ég hef alltaf verið svolítið til hægri og hef haft gaman að pólitísku vafstri. Nú hef ég gert upp hug minn og ákveðið að hætta í Miðflokknum og yfirgefa hægrið. Ég hef semsagt ákveðið að færa mig yfir línuna til vinstri og ákveðið að ganga til liðs við Samfylkinguna. Þar sé ég samsvörun við það sem mér finnst öllu máli skipta, þegar öllu er á botninn hvolft, lífsgæði og velferð fólks,“ skrifar Sigurður.
Segist hann vera sáttur við þessa ákvörðun og fullur tilhlökkunar til að starfa með Samfylkingunni í Hafnarfirði. Flokkurinn er þar í minnihluta eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn endurnýjuðu meirihlutasamstarfs sitt.