Fyrir örfáum dögum bárust þær fréttir frá Frönsku akademíunni, sem hefur það hlutverk að rækta franska tungu, að ákveðið hefði verið að banna ýmis tökuorð sem tengjast tölvuleikjum og nota í staðin frönsk heiti. Sem dæmi má nefna að stofnanir tengdar tölvuleikjum eiga að tala um „joueur professionnel“ í staðinn fyrir „pro gamer“, og „joueur-animateur en direct“ í staðinn fyrir „streamer“. Aðrar þjóðir hafa einnig þýtt orð og hugtök úr heimi tölvuleikja, þar á meðal Ísland, en hvaða gagn gerir það ef leikirnir sjálfur eru ekki þýddir?
Þegar ég var yngri spilaði ég tölvuleiki, þótt það væri í minna mæli en ég geri núna. Sem ungur drengur bjó ég í Belgíu. Þar deildi ég PlayStation 2 tölvu með bróður mínum. Þegar ég keypti leiki þurfti ég alltaf að kíkja á hulstrið á leiknum til að vera viss um að leikurinn væri á ensku, ekki frönsku eða flæmsku, enda kunni ég ekkert í þeim ágætu tungumálum. Á þessum tíma var ekki nægilegt pláss á diskunum til að vera með fleiri en eitt tungumál ef leikurinn var talsettur. Það var því snúið að kaupa tölvuleiki utan enskumælandi landa, því að alltaf gat maður lent á tungumáli sem enginn á heimilinu kunni.
Megnið af lesefni barna á ensku
Eftir því sem tæknin þróaðist höfðu diskarnir meira pláss, og því var yfirleitt hægt að velja á milli tungumála. Ég man þegar ég settist upp í sófa að spila glænýjan leik á PlayStation 3 og ég þurfti að velja tungumál. Mér brá alltaf að sjá fjölda þýðinga, allar með fullri talsetningu og þýðingu á textanum; hægt var að spila leikinn á þýsku, frönsku, rússnesku, kínversku, ítölsku, pólsku og spænsku, og svona mætti lengi telja. En aldrei var hægt að spila á íslensku. Við höfum alltaf þýtt barnaefni, bækur og kvikmyndir til að efla og varðveita tunguna – og um áratuga skeið hefur ekki þýtt að bjóða upp á annað en að talsetja barnamyndir. Aftur á móti hefur algjörlega gleymst að þýða tölvuleiki, vinsælustu afþreyingu barna í dag.
Raunveruleikinn er sá að börn lesa ekki jafn mikið og áður og það sem þau lesa utan skólans er meira og minna á ensku, því að við þýðum ekki tölvuleikina.
Um 90% barna spila tölvuleiki – á ensku
Við gætum að minnsta kosti byrjað á því að þýða vinsælustu nettölvuleikina sem Íslendingar spila, eins og League of Legends, Counter-Strike: Global Offensive, Overwatch, Valorant, Fifa og Fortnite. Allir þessir leikir eru talsettir og í League of Legends er meira að segja hægt að lesa lýsingu á hverjum einasta karakter. Ungir Íslendingar eru talsvert líklegri til að lesa það en nýjustu glæpasögur okkar vinsælu höfunda.
Samkvæmt könnun Gallup frá árinu 2019 spila um 66% Íslendinga tölvuleiki, karlar spila í sjö klukkustundir á viku og konur í fimm. 39% Íslendinga spila leiki í tölvunni, 27% í leikjatölvum eins og PlayStation og 50% í síma. 65% barna á aldrinum 3-5 ára spila tölvuleiki, 94% á aldrinum 6-12 ára og 86% barna á aldrinum 13-17. Með öðrum orðum: Um 90% barna á aldrinum 6-17 ára spila tölvuleiki – á ensku.
Við erum því miður að tapa baráttunni við að varðveita íslenska tungu, því að við leggjum einfaldlega ekkert á okkur til að þýða tölvuleiki.
Við talsetjum bíómyndir – ekki tölvuleiki
Eini tölvuleikurinn á íslensku, svo ég viti til, er Minecraft. Það er allt og sumt. Svo eru að sjálfsögðu „single player“-leikir (það er ekki til góð þýðing á þessu hugtaki, svo ég viti til) þar sem frekar er lögð áhersla á söguþráð en keppni, eins og God of War (2018) og Witcher 3 (2016), sem fólk líkir oft við kvikmyndir. Við talsetjum barnamyndir á íslensku og textum kvikmyndir ætlaðar eldri hópum. Af hverju talsetjum við ekki tölvuleiki?
Ég skora á Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra að grípa til sinna ráða og stuðla að því að tölvuleikir verði þýddir til að stuðla að varðveislu íslenskrar tungu.
Höfundur er sagnfræðinemi við Háskóla Íslands.