Fleiri en níutíu tilfelli apabólu hafa greinst í á öðrum tug landa, þar á meðal Bretlandi, Spáni, Ísrael, Frakklandi, Sviss, Bandaríkjunum og Ástralíu. Sjúkdómurinn hefur fram að þessu að mestu verið bundinn við miðja og vestanverða Afríku. Þar hefur fólk fyrst og fremst smitast af nagdýrum og prímötum en faraldur ekki borist út fyrir landsteinana.
David Heymann, fyrrverandi yfirmaður neyðarmála hjá WHO, segir helstu tilgátuna um uppruna smitanna að þau hafi borist á milli sam- og tvíkynhneigðra karlmanna með kynlífi á tveimur reifum á Spáni og Belgíu.
Spænsk heilbrigðisyfirvöld segjast rannsaka möguleg tengsl við gleðigöngu á Kanaríeyjum þar sem um 80.000 manns komu saman og gufubað í Madrid, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Í Bretlandi hefur það vakið athygli yfirvalda að verulegur hluti þeirra sem hafa smitast sé ungir sam- eða tvíkynhneigðir karlmenn sem hafa aldrei ferðast til Afríku. Sömu sögu hafa yfirvöld í Portúgal og á Spáni að segja.
Erfitt er sagt að greina á milli hvort að sjúkdómurinn smitist við kynlífið sjálft eða hvort bólan hafi borist á milli vegna náins samneytis í kringum það.
WHO telur að bólan kunni að hafa dreift sér svo lítið bæri á um nokkurn tíma í ljósi þess hversu víða hún hefur skotið upp kollinum. Heymann segir þó ólíklegt að apabólan verði að útbreiddum faraldri.
„Þetta er ekki Covid. Við verðum að hægja á henni en hún dreifir sér ekki í lofti og við höfum bóluefni til að verjast henni,“ segir hann.