Frumvarpið var afgreitt út úr þingnefnd á miðvikudag. Washington Post segir að sérfræðingar telji að frumvarpið gæti einnig sett skorður við tæknifrjóvgunum og neyðargetnaðarvörn þar sem það myndi veita frjóvguðu eggi konu réttindi manneskju.
Andstæðingar þungunarrofs í Bandaríkjunum telja sig nú hafa himin höndum tekið eftir að drögum að meirihlutaáliti Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli sem varðar strangar takmarkanir við þungunarrofi í Mississippi var lekið í vikunni. Með álitinu yrði dómafordæmi hæstaréttarins um að konur njóti stjórnarskrárvarins réttar til þungunarrofs snúið við. Einstökum ríkjum væri þá frjálst að takmarka eða þungunarrof enn frekar en þegar er orðið.
„Við höfum beðið í fimmtíu ár eftir að komast á þennan stað,“ sagði Danny McCormick, ríkisþingmaður repúblikana og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Lúisíana er eitt þrettán ríkja sem eru þegar með lög sem gerðu þungunarrof sjálfkrafa ólögleg falli hæstaréttardómur á þennan veg. Líkt og flest ströng þungunarrofslög í Bandaríkjunum kveða þau á um sektir og refsingar fyrir þá sem framkvæma þungunarrof. Það er nýbreytni að ætla að refsa konum sem gangast undir slíka meðferð.
Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum ríkisþingsins. Hljóti frumvarpið náð fyrir augum beggja deilda færi það til ríkisstjórans Johns Bel Edwards til samþykkis. Hann er demókrati en hefur engu að síður stutt lög sem takmarka aðgengi að þungunarrofi í gegnum tíðina.