Skoðun

Borgar borgarlínan sig?

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Heilbrigð þétting byggðar getur ekki orðið að veruleika án Borgarlínunnar í Hafnarfirði. Slík þétting er forsenda fyrir lifandi og áhugaverðum bæ sem getur laðað að sér fyrirtæki og fólk. Borgarlína og húsnæðisuppbygging er sitt hvor hliðin á sama peningi. Sóknarfærin í Hraun Vestur og við Flensborgarhöfn byggja á öflugum almenningssamgöngum. Það er því ljóst að án Borgarlínunnar verða ekki byggð upp spennandi borgarhverfi þar sem blönduð byggð íbúða og þjónustu verða í öndvegi. Án Borgarlínunnar er því hætt við að Hafnarfjörður þróist smám saman eingöngu í úthverfi sem getur aftur veikt miðbæinn og bæjarbraginn. 

 Sem betur fer er allt á fleygiferð hjá fyrirtækinu Betri samgöngum við undirbúning þessarar miklu innviðafjárfestingar en það er áhyggjuefni hvað meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði sýnir þessu mikla hagsmunamáli okkar lítinn áhuga. Það er nefnilega staðreynd að Hafnarfjörður á í samkeppni við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að laða fyrirtæki og fólk til sín. Helstu fyrirtæki landsins keppast nú við að staðsetja sig nálægt framtíðar Borgarlínum og á meðan Borgarlínan inn í Hafnarfjörð er með síðustu áföngum á dagskrá (ca árið 2030-2032) og lítill sem engin áhugi hjá meirihlutanum, er næsta víst að fyrirtækin muni leita annað. 

 Það er deginum ljósara að við í Hafnarfirði þurfum að vinna heimavinnuna okkar og vera búin með skipulagsvinnu okkar megin til að tefja ekki framkvæmdir og lenda undir í samkeppninni við önnur sveitarfélög. Því meira sem við trössum Borgarlínuna því meira tefjum við uppbyggingu húsnæðis í Hafnarfirði. Það er því með ólíkindum að allir flokkar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi synjað ósk okkar Viðreisnar um að hefja deiliskipulagsvinnu á þessu ári er varðar lausnir á mögulegri legu borgarlínunnar. 

 Það skiptir máli í öllu þessu ferli að sýna frumkvæði og vera tilbúinn með allt sem snýr að Hafnarfirði því ef við tefjum og slórum munu önnur svæði verða tekin fram fyrir okkur með öllum þeim töfum á uppbyggingu húsnæðis sem því fylgir. Við höfum ekki efni á því að tefja frekari húsnæðisuppbyggingu og þéttingu byggðar hér í Hafnarfirði. 

Borgar Borgarlínan sig þá? Leið 1 milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur sem komin er næst því að vera Borgarlína, standur undir sér.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×