Skoðun

Er eitt­hvað til í frí­skápnum?

Inga Þyrí Kjartansdóttir skrifar

Við Bergþórugötu 20 er að finna heldur meinlausan ísskáp, hann lætur ekki mikið fyrir sér fara, bara stendur þarna í rólegheitunum. Hann, líkt og Clark Kent áður en hann tekur niður gleraugun, á sér leyndarmál. Hann er nefnilega enginn venjulegur ísskápur!

Téður ísskápur er svokallaður frískápur sem líkt og áður nefnt ofurmenni berst linnulaust gegn illum öflum. Það er sorgleg staðreynd að á meðan sífellt vaxandi hópur fólks á ekki nægan mat fyrir sjálft sig og börnin sín þá fer vaxandi hluti þess matar sem framleiddur er í ruslið. Og þrátt fyrir mikla eftirspurn gengur illa að endurvinna allt það lífræna sorp sem af þessu sprettur í nothæfa moltu.

Frískápurinn á Bergþórugötunni var settur upp af framsæknum aðilum sem vissu af samskonar verkefnum erlendis í heimalöndum sínum og ákváðu að láta reyna á verkefnið hérlendis. Þangað getur hver sem er komið með mat sem það sér ekki fram á að nota og hver sem er farið með mat sem hann vantar. Og verkefnið hefur slegið í gegn!

Allt að vinna, allir græða - umhverfið, fólkið sem gefur og fólkið sem þiggur.

Það var mér kappsmál að koma því í stefnu Framsóknar í Reykjavík að koma fyrir frískáp í öllum hverfum borgarinnar. Þar var tekið vel með málaflokknum og öll boðin og búin til þess að aðstoða eins og kostur gafst. Frá því í janúar á þessu ári hefur farið fram leit í Smáíbúðahverfinu að góðum stað fyrir frískáp. Að endingu var það Hjálpræðisherinn sem tók að sér að hýsa skápinn í fallega nýja húsinu sínu og undirbúningur á opnun hans er á lokastigi.

Í Breiðholtinu tók það bara nokkra daga að finna stað fyrir frískáp, það var hann Valdi sem skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík og stjórnar Brúnni í Völvufelli sem tók að sér að hýsa hann. Frískápurinn hefur verið opinn fyrir matargjafir og þiggjendur í bráðum mánuð núna. Þangað fara afgangar frá heimilum, veitingahúsum, jafnvel fermingarveislu og hverfa jafnóðum.

Fleiri staðir eru í undirbúningi, misjafnlega langt komnir. Allt þetta er unnið í sjálfboðavinnu enda er þetta sjálfsprottin samvinna af umhyggju fyrir umhverfinu og náunganum. Ein getum við litlu breytt, en saman getum við breytt heiminum.

Er ekki kominn tími á meiri samvinnu í borginni?

Höfundur skipar 17. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×