Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH, segir að tímabært hafi verið að minnka aðstöðuna og sýnatakan verði á nýja staðnum í sumar hið minnsta.
Mikill samdráttur hafi verið í aðsókn eftir að sóttvarnatakmörkunum var aflétt og nú séu að jafnaði tekin um 100 til 200 PCR-próf á dag. Mest sé um að ræða ferðamenn sem þurfi vottorð vegna ferðalaga.
Heilsugæslan hefur verið með sýnatöku á Suðurlandsbraut 34 samfellt frá því í júlí árið 2020 en hefur nú sagt upp leigusamningnum. Ragnheiður segir að húsið hafi hentað vel undir starfsemina og vill skila sérstökum þökkum til fasteignafélagsins Reita sem lánaði húsnæðið í fyrstu endurgjaldslaust.