Skoðun

Íþróttir yngstu barnanna eiga að vera gjaldfrjálsar í Kópavogi

Sverrir Kári Karlsson skrifar

Jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs eru okkur Framsókn í Kópavogi mjög hugleikin og að okkar mati forgangsmál. Það var jú Framsókn sem á sínum tíma kom frístundastyrknum á laggirnar og þykir hafa heppnast vel í þágu jöfnuðar og forvarna.

En hvers vegna að láta staðar numið hér? Það er mikilvægt að taka stöðuna, endurmeta og halda umræðunni áfram um hvort mögulega sé hægt að jafna tækifærin enn frekar. Við vitum að þörfin fyrir framþróun í þessum málum er sannarlega til staðar. Með hækkandi kostnaði íþróttafélaga, t.d. vegna launakostnaðar, sjáum við að hér getum við gert betur þegar kemur að stuðningi sveitarfélagsins við iðkendur íþrótta- og tómstundastarfs í Kópavogi.

Það er skylda okkar sem njótum þess trausts að fá að starfa í stjórnmálum, að þróast og halda sífellt áfram að leita allra leiða til að gera betur. Við hjá Framsókn höfum einmitt gert það eins og dæmin sýna og það er nákvæmlega það sem við ætlum að halda áfram að gera. Gefum nýjum hugmyndum tækifæri, setjum nýsköpun í forgrunn og gerum enn betur.

Framsókn í Kópavogi metur sem svo að nú sé rétt að stíga næsta skref. Við viljum leiða innleiðingu nýrrar nálgunar bæjarfélagsins, eins og við leiddum innleiðingu frístundastyrkjarins, og leggja línurnar í góðu samstarfi við hagsmunaaðila, á þann hátt að íþrótta- og tómstundastarf yngsta stigs iðkenda 9 ára og yngri verði gert gjaldfrjálst. Þessi viðbót við annars gott frístundastyrkjarkerfi, er okkar leið til að jafna tækifæri barna enn frekar á sviði íþrótta- og tómstunda sem og að sýna það bæði í orði og á borði að hagur fjölskyldna og barna í Kópavogi, er í okkar augum, augljóst forgangsmál.

Höldum áfram að vinna að jöfnun tækifæra barna og styðjum við fjölskyldur í Kópavogi - vegna þess að við getum það.

Höfundur er verkfræðingur/sviðsstjóri og frambjóðandi Framsóknar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×