Bryndís ræddi við fréttastofu í dag um lækkandi traust til ráðherra ríkisstjórnarinnar í kjölfar sölunnar.
„Nei, ekkert sérstaklega,“ segir Bryndís aðspurð hvort lækkandi traust komi henni á óvart. „Við erum stödd á þeim stað í umræðunni og hún hefur verið mjög hörð á samfélagsmiðlum og úti í samfélaginu. Alls konar sögur hafa verið að fljúga um samfélagið og nú er það verk að vinna.“
Hún segir að nú þurfi að koma á framfæri því góða sem gekk upp við söluna.
„Stóra myndin gekk mjög vel í þessu en það eru atriði sem við verðum að rannsaka og við verðum að fá svör við hér á þingi. Meðal annars þurfum við Bankasýsluna í lið með okkur í því að svara þessum spurningum,“ segir Bryndís. „Ef að einhverjir hafa brotið lög þá þarf að rannsaka það til hlítar.“
Viðtalið við Sigmund Davíð og Bryndísi hefst þegar um 3:30 eru liðnar af myndbandinu hér fyrir neðan.
Laskað traust kemur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, heldur ekki á óvart. Hann vill þó meina að traust til ráðherrana hefði alltaf farið minnkandi, þrátt fyrir ef engin bankasala hefði átt sér stað.
„Ég held að fylgið eða stuðningurinn hefði alltaf farið minnkandi eftir að þau höfðu ekki lengur Covid-skjólið sem þeim hefur liðið ágætlega í í tvö ár. Nú er allt í einu byrjuð aftur pólitísk umræða á Íslandi og það er ekki sérgrein þessarar ríkisstjórnar að ræða pólitík,“ segir Sigmundur.