Innlent

Fuglaflensa staðfest í hænunum á Skeiðum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Hænurnar voru allar aflífaðar eftir að grunur kom upp um smit. Myndin er úr safni. 
Hænurnar voru allar aflífaðar eftir að grunur kom upp um smit. Myndin er úr safni. 

Fuglaflensan hefur nú greinst í heimilishænum en sýni voru tekin úr hænum á bænum Reykjum á Skeiðum í síðustu viku. Tilkynnt var um það síðastliðinn föstudag að fuglaflensa hefði greinst í þremur villtum fuglum, þar á meðal í hrafni sem fannst dauður á Skeiðum. Þá var sterkur grunur um að hænurnar á Skeiðum væru smitaðar sem hefur nú verið staðfest.

Að því er kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun voru sýnin rannsökuð á tilraunastöð HÍ að Keldum en þau verða nú rannsökuð nánar á rannsóknarstofu erlendir, meðal annars til að kanna meinvirkni veirunnar. 

Niðurstaðna er að vænta í næstu viku en veiran var af gerðinni H5. Líklegt er miðað við greiningar í Evrópu að veiran sem greinst hefur hér sé af gerðinni H5N1, sem er skæð meinvirk veira. 

Talið er víst að hænurnar hafi smitast af villtum fuglum en þó eru litlar líkur á að smit hafi borist frá hænunum, sem allar voru aflífaðar eftir að grunur um smit kom upp, í aðra alifugla. 

Eigendur alifugla eru þó hvattir til að fylgjast vel með fuglum sínum og tilkynna til Matvælastofnunar ef þeir verða varir við sjúkdómseinkenni eða dauða.

Hætt er við að töluvert sé um fuglaflensusmit í villtum fuglum um þessar mundir en til viðbótar við þá þrjá fugla sem fuglaflensa hefur verið staðfest í hefur Matvælastofnun fengið mikið af tilkynningum um dauða viillta fugla víða á landinu.

Matvælastofnun kannar nú allar ábendingar og metur hvort ástæða sé til að taka sýni. Fólki er bent á að gæta ítrustu sóttvarna ef það þarf að handleika villta fugla, hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi. Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu eggja eða fuglakjöts.


Tengdar fréttir

Fuglaflensa greinst hér á landi

Fuglaflensa hefur verið staðfest í þremur villtum fuglum sem fundist hafa hér á landi undanfarna daga. Um er að ræða heiðagæs við Hornafjörð, hrafn á Skeiðum í Árnessýslu og súlu rétt við Strandarkirkju við Suðurstandaveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×