Víkingar byrjuðu leikinn betur og komust mest í 6 marka forystu þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 6-12. Heimamönnum tókst að laga stöðuna örlítið fyrir hálfleik og hálfleikstölur voru 11-15 fyrir Víking.
Síðari hálfleikur var jafn framan af en heimamönnum tekst að jafna metin á 46. mínútu leiksins í stöðunni 22-22 og við tóku æsispennandi lokamínútur. Það var allt jafnt þegar tvær mínútur lifðu eftir af leiknum en þá tók HK völdin og þeir skoruðu síðustu tvö mörkin til að vinna leikinn 28-26.
Jóhann Reynir Gunnlaugsson, leikmaður Víkings, var markahæsti leikmaður vallarins með 8 mörk úr 13 skotum en Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði flest mörk í liði HK, alls 6 stykki úr 8 tilraunum. Hjörtur gerði einnig síðustu tvö mörk HK.
HK er eftir sigurinn með sex stig í 11. sæti á meðan Víkingur er áfram á botni deildarinnar með 3 stig.
HK leikur gegn ÍBV í lokaleik sínum næsta sunnudag en Víkingur fer í heimsókn til Stjörnunnar í Garðabæ.
Fram fór nokkuð auðveldlega í gegnum leik sinn við Stjörnuna en Fram skoraði fyrsta mark leiksins og leiddi viðureignina frá upphafi til enda.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, var markahæsti leikmaður vallarins með alls 9 mörk úr 11 tilraunum. Hjá Stjörnunni var Tandri Már Konráðsson markahæstur en hann skoraði úr 7 af sínum 8 skotum.
Lokaleikur Fram er gegn Aftureldingu og er það úrslitaleikur um áttunda sætið. Stjarnan leikur á sama tíma gegn Víking en Stjarnan mun enda í sjötta sæti sama hvernig sá leikur fer.