Breiðablik sat í níunda sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Liðið þurfti á sigri að halda gegn Stjörnunni og um leið að treysta á það að KR myndi tapa gegn Valsmönnum til að komast í úrslitakeppnina.
KR-ingar töpuðu sínum leik nokkuð örugglega og því voru örlög Blika í þeirra eigin höndum. Eftir gríðarlega jafnan og spennandi leik var staðan jöfn, 105-105, þegar innan við hálf mínúta var eftir af leiknum.
Blikar fengu tækifæri til að komast yfir á þeim tímapunkti, en létu skotklukkuna renna út og misstu þar með boltann. Afar klaufalegt.
Stjarnan fékk því einn lokaséns til að stela sigrinum þegar um þrjár sekúndur voru eftir. Þeir fundu Hlyn Bæringsson einan undir körfunni, en hann klikkaði á opnu sniðskoti. Robert Turner III kom liðsfélaga sínum hins vegar til bjargar þegar hann sveif inn, greip boltann á lofti og setti hann í körfuna í þann mund sem lokaflautið gall og niðurstaðan varð því tveggja stiga sigur Stjörnumanna, 107-105.
Strákarnir í Subway Körfuboltakvöldi fylgdust með öllum leikjum kvöldsins samtímis og birtu myndband af lokasekúndum leiksins á Twitter-síðu sinni, en myndbandið má sjá hér að neðan.
Alvöru senur í Smáranum þar sem @stjarnankarfa sendir @BreidablikKarfa í sumarfrí með flautukörfu. #körfubolti #subwaydeildin pic.twitter.com/IZks6pWl7H
— Subway Körfuboltakvöld (@korfuboltakvold) March 31, 2022