„Yfirbragð þingstarfa síðustu vikur hefur í besta falli verið sérkennilegt og líklega ekki til þess fallið að auka traust eða virðingu þingsins,“ segir Óli Björn í grein sinni. Og hann heldur áfram að væna stjórnarandstöðuna um að vera til vandræða:
Mismerkilegur málflutningur
„Í yfirstandandi mánuði hafa þingmenn stjórnarnandstöðunnar talið nauðsynlegt að taka nokkur hundruð sinnum til máls vegna fundarstjórnar forseta – ekki til að ræða um form líkt og þingsköp mæla fyrir heldur um efni máls.

Og þeir hafa verið duglegir að spjalla við hvern annan í andsvörum, milli þess sem þeir endurtaka efnislega ræður hvers annars í umræðum um þingmál sem vissulega skipta land og þjóð misjafnlega miklu,“ segir Óli Björn.
Þessi grein mun svo verða tekin til umræðu í liðnum Um fundarstjórn á þinginu nú á eftir. Óli Björn heggur þarna í sömu knérunn og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. En í gær voru harðar umræður á þinginu um hliðstæðar ásakanir hans. Þau orð ráðherra fóru öfugt ofan í þingmenn stjórnarandstöðunnar, leiddu til uppnáms á þinginu og nú skvettir Óli Björn olíu á þann eld.
Frumvörp sitja föst vegna mismerkilegra málfundaæfinga
„Þinghaldið allt er því í hægagangi,“ segir Óli Björn sem fullyrðir í grein sinni að svo sé það í hugum stjórnarþingmanna; að mismerkilegar málfundaæfingar stjórnarandstöðunnar séu dragbítur á ýmislegt það sem til framfara horfi fyrir land og þjóð.
„Tugir stjórnarmála bíða umræðu. Mörg hafa verið á dagskrá þingsins dögum saman án þess að ráðherrar hafi fengið tækifæri til að mæla fyrir þeim. Efnisleg umræða fer ekki fram, frumvörp og þingsályktunartillögur komast ekki til nefnda og því ekki send út til umsagnar. Misjafnlega merkilegar málfundaæfingar í þingsal halda hins vegar áfram,“ segir Óli Björn.