Innlent

Himin­lifandi með af­léttingar en hafa á­hyggjur af nýrri ógn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða og Sólrún Dögg Jósefsdóttir formaður skólafélags Menntaskólans í Reykjavík.
Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða og Sólrún Dögg Jósefsdóttir formaður skólafélags Menntaskólans í Reykjavík. Vísir/Einar/Stöð2

Lífið á Ís­landi varð með öllu hömlu­laust á mið­nætti þegar allar sótt­varna­að­gerðir vegna kórónu­veirunnar voru felldar úr gildi. Fram­kvæmda­stjóri í ferða­þjónustu og for­maður nem­enda­fé­lags fagna frelsinu en eru þó bæði uggandi yfir nýrri ógn.

Þetta er í annað sinn frá upp­­hafi far­aldurs sem öllu er af­létt en það var áður gert í sumar, sem reyndist skamm­­góður vermir. Nú eru vonir bundnar við að af­léttingar verði varan­­legar.

Grímu­­skylda, sam­komu­tak­­markanir og nándar­­reglur heyra nú sögunni til - og fólk getur þannig ó­­hindrað fallist í faðma við næsta mann.

Þá var öllum að­­gerðum einnig af­létt á landa­­mærum, sem fram­­kvæmda­­stjóri Kynnis­­ferða segir sannar­­lega marka upp­­haf bjartari tíma í ferða­­þjónustu. Að­­gerðirnar fram að af­léttingu hafi verið í­þyngjandi - en nú sé von á góðu ferða­­sumri.

„Það er meira að segja komið þannig að í á­kveðnum hlutum rekstrarins getum við ekki bætt við okkur verk­efnum, þannig að það er þegar byrjað að vera mjög mikið og meiri bókanir heldur en 2019 svona í á­kveðnum hlutum,“ segir Björn Ragnars­son fram­kvæmda­stjóri Kynnis­ferða.

„Það er mikill ferða­þorsti, ekki bara í okkur Ís­lendingum heldur öllum í heiminum,“ heldur Björn á­fram.

For­maður skóla­fé­lags MR er himin­lifandi með af­léttingar, enda telur hún tak­markanir í far­aldrinum einna helst hafa bitnað á ungu fólki.

„Þetta eru fimm af sex önnum fyrir 2003 ár­gerðina sem er að út­skrifast í vor, sem er rosa­lega sárt að hugsa til en maður verður samt sem áður bara að vera þakk­látur fyrir það sem maður fær og njóta góðu stundanna,“ segir Sól­rún Dögg Jósefs­dóttir for­maður skóla­fé­lags MR.

En eitt tekur við af öðru. Björn segir vís­bendingar um að á­standaði í Úkraínu sé byrjað að kæfa ferða­vilja.

„Við erum byrjuð að heyra það frá okkar við­skipta­vinum í Banda­ríkjunum að fólk hefur á­hyggjur af þessu. Fólk kannski áttar sig ekki alveg á fjar­lægðum, Úkraínu og Ís­landi, og þetta bara leggur Evrópu undir.“

Og hjá unga fólkinu er út­skriftar­ferð undir, sem ekki hefur náðst að fara í vegna Co­vid.

„Og við vonum, hvernig sem á­standið verður í heiminum, að við fáum að fara í þessa ferð,“ segir Sól­rún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×