Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 4,2%. Þetta kemur fram í nýjum verðlagstölum Hagstofu Íslands. Verðbólga jókst meira en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir en hagfræðideild Landsbankans spáði að ársverðbólga myndi mælast 5,8% í febrúar. Þá spáði Greining Íslandsbanka 5,9% verðbólgu á ársgrundvelli og Arion banki 6,1%.
7,5 prósent verðhækkun á húsgögnum, heimilisbúnaði frá janúar hafði mest áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs samkvæmt tölum Hagstofunnar, eða 0,47%.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 1,2% (áhrif á vísitölu 0,22%), verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% (áhrif á vísitölu 0,11%) og bensín og olíur hækkuðu um 3,6% (áhrif 0,11%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 9,7% (áhrif 0,14% til lækkunar).
Spá 5,8% verðbólgu
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentur í febrúar og eru nú 2,75 prósent. Í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að verðbólguhorfur hafi versnað töluvert og undirliggjandi verðbólga einnig aukist. Þar spili inn í hækkun húsnæðisverðs, annarra innlenda kostnaðarliða og olíu- og hrávöruverðs.
Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8% á fyrsta fjórðungi ársins, sem lýkur í mars, og yfir 5% fram eftir þessu ári.
Fréttin hefur verið uppfærð.