Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með allri uppbyggingunni á Selfossi síðustu ári og sjá hvað bæjarfélagið er að stækka með nýjum íbúðarhverfum og þar með nýjum íbúum, sem flytja í hverfin.
Árið 2022 verður líklega algjört metár í fjölda nýrra íbúa því reiknað er með 15 prósent fjölgun í ár. Í dag eru íbúar á Selfossi um 9.300 en í allri Árborg eru þeir tæplega 11 þúsund.
„Áformin eru slík að ef allar þær íbúðir yrðu byggðar á þessu ári, sem menn hyggja á og það yrði flutt í þær allar þá myndi það samsvara 15 prósent fjölgun íbúa. Það eru um 1800 manns. Ég vona nú að menn stilli sig eitthvað í þessu, það er alveg nóg fyrir okkur að fá þúsund manns,“ segir Gísli Halldór.

Hann segir mikla vaxtarverki fylgja 15 prósent fjölgun fyrir sveitarfélagið.
„Já, gríðarlega miklir, það er mikið sem þarf að viðhafa í tengslum við skólahúsnæði og leikskólamál. Við erum að fá ýmis verkefni í fangið, eins og mygluvandræðin á Eyrarbakka, sem krefjast þess að við gerum átak þar í skólahúsnæðismálum,“ segir bæjarstjórinn.
