Fjölmiðlar vestanhafs höfðu áður sagt fréttir af því að forsvarsmenn Þjóðskjalasafnsins hefðu tilkynnt flutning gagnanna til Dómsmálaráðuneytisins.
Það staðfesti Þjóðskjalasafnið einnig í bréfi til þingmanna.
Í síðustu viku sagði Washington Post meðal annars frá því að meðal skjalanna sem Trump tók með sér hafi verið skjöl merkt sem „Top Secret“, sem er ein hæsta leyndarskilgreining bandarískra stjórnvalda.
Samkvæmt bandarískum lögum eiga öll opinber gögn eins og minnisblöð, bréf, glósur, tölvupóstar og ýmislegt annað að enda í Þjóðskjalasafninu.
Sjá einnig: Tók leynileg gögn með sér til Flórída
Verið er að fara nákvæmlega yfir hvaða skjöl voru í þeim fimmtán kössum sem um er að ræða og er búist við því að yfirferðinni ljúki í næstu viku.
Washington Post vísar nú í tilkynningu frá Trump þar sem hann segir Þjóðskjalasafnið ekki hafa „fundið“ neitt. Þeim hafi verið færð skjölin í hefðbundnu og eðlilegu ferli sem væri í samræmi við lög. Þá gagnrýndi Trump blaðamenn fyrir að gefa í skyn að Trump ynni í skjalasafni, þegar hann var að gera aðra hluti.
Starfsmenn Þjóðskjalasafnsins hafa einnig leitt í ljós að starfsmenn Hvíta húss Trumps skrásettu ekki margt af því sem þeir gerðu og notuðu óopinberar leiðir og forrit til að sinna opinberum störfum, sem þeir mega ekki gera.
Erfið vika
Síðasta vika hefur reynst Trump mjög erfið, lagalega séð. Það er þá fyrir utan möguleg brot hans á lögum um varðveislu opinberra gagna.
Fyrst lýstu forsvarsmenn endurskoðunarfyrirtækisins Mazars USA því yfir að þeir standi ekki lengur við fjárhagsskýrslu sem gerðar voru fyrir fyrirtæki Trumps á undanförnum árum og slitu öllum tengslum við fyrirtækið og Trump.
Þessar fjárhagsskýrslur voru meðal þess sem Trump notaði til að verða sér út um lán í gegnum árin en fyrirtæki hans er til rannsóknar hjá yfirvöldum í New York vegna gruns um að framin hafi verið banka- og skattsvik.
Skýrslurnar byggðu á upplýsingum sem fyrirtækið fékk frá Trump og Trump Org. Þær voru grundvöllur lánveitinga sem saksóknarar rannsaka varðandi það hvort Trump hafi beitt sviksömum og villandi leiðum til að fá lán og greiða lægri skatta.
Sjá einnig: Standa ekki lengur við fjárhagsskýrslur fyrirtækis Trumps
Þá komst dómari í New York að þeirri niðurstöðu í vikunni að Trump yrði að mæta í skýrslutöku vegna áðurnefndra rannsókna. Enn einn dómarinn neitaði þar að auki að fella niður lögsókn þingmanna Demókrataflokksins og lögregluþjóna gegn honum vegna árásarinnar á þinghúsið í Bandaríkjunum í janúar í fyrra.
Einn sérfræðingur sem ræddi við AP fréttaveituna sagði að þó þessi vika hefði verið slæm fyrir Trump, yrðu næstu vikur verri.