Í Þýskalandi var Íslendingaslagur í B-deildinni þegar Anton Rúnarsson og félagar í Emsdetten fengu Tuma Stein Rúnarsson og félaga í Coburg í heimsókn en þeir Anton og Tumi voru samherjar hjá Val í Olís deildinni á síðustu leiktíð.
Coburg vann útisigur, 27-29, þar sem Tumi Steinn skoraði tvö mörk. Anton var næstmarkahæsti leikmaður Emsdetten með fimm mörk.
Á sama tíma, í sömu deild vann Íslendingalið Gummersbach öruggan fjögurra marka sigur á Eintracht Hafen, 30-26. Elliði Snær Viðarsson komst ekki á blað hjá Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson var fjarri góðu gamni en Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach.
Í Svíþjóð töpuðu Daníel Freyr Andrésson og félagar í Eskilstuna fyrir Ystads.