Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands, stofnaði hópinn í síðustu viku en markmið hópsins er að safna sögum um ketti sem finnast langt að heiman svo hægt sé að kortleggja stöðuna og bera saman hvar kettir finnast.
„Þetta getur ekki verið tilviljun,“ segir Hallgerður í samtali við fréttastofu um fréttir undanfarna mánuði af köttum sem finnast langt frá heimili sínu, oft í öðru bæjarfélagi. Nýverið var til að mynda greint frá því að kötturinn Flóki, sem týndist úr hverfi 108 vorið 2021, hafi fundist á Selfossi eftir margra mánaða leit.
Sjálf segist Hallgerður hafa heyrt fjölmargar sögur af köttum sem finnast langt frá heimilinu og í sumum tilvikum finnast kettir reglulega á ákveðnum stað.
„Ég þekki konu sem býr á að því er virðist á „vinsælum stað“ rétt fyrir utan bæinn, vinsælum til að keyra með ketti og sleppa þeim, hún er bara reglulega yfir árið að fá kisur heim til sín sem eru greinilega týndar og frá allskonar stöðum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Hallgerður.
Þá segir hún það þekkt að kettir finnist við Ölfusarbrúnna og á Kjalarnesi.
„Fólk virðist halda á að þetta séu eigendur sem eru að losa sig við ketti, ég held að það sé ekki málið. Ég er meira smeyk um að það sé verið að fara með ketti á þessa staði,“ segir Hallgerður.
„Það er til fólk sem leggur hatur á ketti og finnst bara allt í lagi að fara illa með þá, og þetta er bara eitt af því sem við höfum áhyggjur af,“ segir hún. „Þetta er bara óskiljanleg mannvonska.“
Hún segir markmiðið með hópnum vera að fá eigendur katta til að deila sínum sögum en ekki til að auglýsa týnda ketti, fjöldi annarra hópa séu til staðar fyrir slíkt. Þá geti fólk komið inn með gamlar sögur.
„Ég vona að eigendur sem eiga kött sem hefur fundist mjög langt að heiman komi inn og deili sínum sögum,“ segir Hallgerður.