Innlent

Grunaður um ofsaakstur undir áhrifum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt voru margvísleg.
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt voru margvísleg. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann bifreiðar eftir hraðamælingu á Reykjanesbraut í Kópavogi á ellefta tímanum í gærkvöldi. Bifreiðin mældist á 46 kílómetra hraða yfir hámarkshraða, sem er 80 kílómetrar á klukkustund, og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem send er fjölmiðlum daglega.

Á öðrum tímanum í nótt var þá tilkynnt um umferðaróhapp á Kringlumýrarbraut í Hlíðahverfi. Ökumaður hafði þá misst stjórn á bifreið sinni og ekið á staur. Samkvæmt lögreglu var bíllinn fluttur af vettvangi.

Nokkrum mínútum síðar var tilkynnt um slagsmál í Hlíðahverfi. Maður í annarlegu ástandi var handtekinn á vettvangi, grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglunnar fyrir rannsókn málsins, en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hversu alvarlegir áverkar brotaþola voru.

Gestur tók með sér úlpu, bíllykla og fartölvu

Tveir aðrir voru handteknir í nótt, annar þeirra grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, en hinn grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Sá síðarnefndi var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Eins var tilkynnt um tvö þjófnaðarbrot. Í fyrra skiptið var um að ræða innbrot í íbúðarhúsnæði í miðbænum, þar sem farið var inn um glugga og verðmætum stolið. Sú tilkynning barst klukkan 19 í gærkvöldi. Tveimur og hálfum tíma síðar var tilkynnt um gest í íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði, sem hafði numið á brott bæði fartölvu og úlpu með bíllyklum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×