Í frétt DV um málið er vitnað í tilkynningu sem send var á félagskonur FKA frá þeim sex konum sem skipa stjórn félagsins. Þar segir að þær hafi óskað eftir því á stjórnarfundi á fimmtudag að Sigríður Hrund „sýndi ábyrgð og stigi til hliðar“. Sú ósk sé byggð á atriðum í framkomu formanns síðustu mánuði þó læk við færslu Loga Bergmanns og viðbrögð í kjölfarið vegi þar þyngst.
Í frétt Vísis um læk Sigríðar á sínum tíma viðurkenndi hún að hafa gert mistök þegar hún lækaði færslu Loga Bergmann Eiðssonar á Facebook þar sem Logi neitaði að hafa brotið á Vítalíu Lazarevu.
Hún sagði þá að fyrir henni merki þumallinn umtalaði ekki alltaf samþykki heldur sendi skilaboðin „ég heyri hvað þú segir“ til færsluhöfundar. Hún hafi þó ákveðið að fjarlægja endurgjöfina þegar henni var bent á það hversu merkingarbært slíkt læk getur verið.
Mun halda sig til hlés í fjölmiðlum
Ljóst er að þessi viðbrögð Sigríðar hafa ekki dugað fyrir stjórn FKA. Í tilkynningu stjórnarinnar segir að niðurstaða formannsins hafi verið að stíga ekki til hliðar á þeim forsendum að ekki væri stoð fyrir því í lögum félagsins og vegna þess stuðnings sem hún telur sig hafa. Hún samþykkti hins vegar að halda sig til hlés frá fjölmiðlum fram að næsta aðalfundi.
Í frétt DV segir að eftir að tilkynning stjórnarkvennanna var send á félagskonur hafi Sigríður Hrund sent frá sér yfirlýsingu í lokuðum hópi FKA á Facebook. Þar kemur hún inn á þá ákvörðun sína að hætta ekki sem formaður félagsins.
Heitar umræður hafa skapast í hópnum um málið þar sem því er meðal annars velt upp hver heimild stjórnar sé að setja formann til hliðar. Þá velta félagskonur því einnig fyrir sér hvað annað en lækið umtalaða hafi orðið til þess að stjórnin hafi farið fram á afsögn Sigríðar en ekkert kemur nánar fram í tilkynningu stjórnarinnar hvaða önnur atriði í framkomu hennar hafi orðið til þess að krafist var afsagnar.