Ómar Ingi Magnússon varð í gærkvöld tíundi handboltamaðurinn til að hljóta nafnbótina íþróttamaður ársins. Þessi 24 ára gamli Selfyssingur hefur átt magnað ár með liði Magdeburg sem er á toppi bestu landsdeildar heims, og unnið með því Evrópudeildina og HM félagsliða.
Sigríður Sigurðardóttir varð fyrst handboltafólks til að vera kjörin íþróttamaður ársins, árið 1964.
Geir Hallsteinsson (1968), Hjalti Einarsson (1971), Alfreð Gíslason (1989), Geir Sveinsson (1997), Ólafur Stefánsson (2002, 2003, 2008 og 2009), Guðjón Valur Sigurðsson (2006), Alexander Petersson (2010) og Aron Pálmarsson (2012) hafa einnig hlotið titilinn.

Þetta er því í þrettánda sinn sem að handboltamaður hlýtur titilinn. Jafnoft hefur knattspyrnufólk hlotið titilinn en oftast hafa frjálsíþróttamenn unnið eða 21 sinni.
Alls hafa 45 íþróttamenn verið kjörnir íþróttamaður ársins á þeim 66 árum sem kjörið hefur farið fram. Þau sem hafa hlotið titilinn oftar en einu sinni eru Vilhjálmur Einarsson (5), Ólafur Stefánsson (4), Einar Vilhjálmsson (3), Hreinn Halldórsson (3), Örn Arnarson (3), Valbjörn Þorláksson (2), Guðmundur Gíslason (2), Ásgeir Sigurvinsson (2), Skúli Óskarsson (2), Jón Arnar Magnússon (2), Eiður Smári Guðjohnsen (2), Gylfi Þór Sigurðsson (2) og Sara Björk Gunnarsdóttir (2).
Í þau 66 skipti sem Samtök íþróttafréttamanna hafa nú staðið fyrir kjörinu hafa karlar hreppt nafnbótina 58 sinnum og konur átta sinnum. Frá og með árinu 2015 er kynjaskiptingin hins vegar þannig að konur hafa unnið fjórum sinnum og karlar þrisvar.