Innlent

Sinu­bruni vegna flug­elda: „Það mátti litlu muna“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Slökkviliðið biður fólk um að fara varlega en mjög þurrt hefur verið í veðri víðsvegar um landið. Aðstæður geti verið varasamar.
Slökkviliðið biður fólk um að fara varlega en mjög þurrt hefur verið í veðri víðsvegar um landið. Aðstæður geti verið varasamar. Aðsend/Viktor Smári

Betur fór en á horfðist þegar sinubruni braust út á Flötum skammt frá Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrr í kvöld. Verið var að sprengja flugelda á svæðinu og er líklegt að glóð úr flugeldum hafi borist í sinu. Mjóu mátti muna en eldurinn kom upp í sumarbústaðarbyggð. 

Lárus Kristinn Guðmundsson, settur varaslökkvistjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að glóð frá flugeldum geti auðveldlega valdið miklum eldsvoða en þurrt hefur verið í veðri síðustu daga. Fólk sem var á svæðinu þegar eldurinn braust út reyndi að slökkva eldinn með garðslöngum og slökkvitækjum, en höfðu fljótlega samband við neyðarlínuna. 

„Þarna voru þrír bústaðir í hættu, sumarbústaðir, þetta er svona sumarbústaðarhverfi. Hann [eldurinn] náði ekki að fara í hús en það mátti litlu muna,“ segir Lárus Kristinn og bætir við að um einn hektari af landi hafi brunnið. Engin slys urðu á fólki.

Lárus segir að blessunarlega hafi ekki farið verr en slökkviliðið tók ekki nema tíu mínútur að komast á vettvang. Sendir voru tveir tankbílar og þrír dælubílar á staðinn: „Það þarf ekki annað en bara, þú skýtur upp rakettu og svo dettur glóðin af rakettunni einhvers staðar niður. Þetta er svo fljótt að gerast,“ segir Lárus Kristinn og biður fólk um að fara varlega.

Eldurinn dreifðist hratt út.Aðsend/Viktor Smári



Fleiri fréttir

Sjá meira


×