Bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára gegn Covid-19 voru ræddar á opnun fjarfundi velferðarnefndar Alþingis í morgun. Drög hafa verið lögð að því hvernig staðið verður að bólusetningunni. Bólusett verður í skólum en til greina kemur að fella niður skólahald þann dag sem bólusett verður. Forsjáraðilar barna mega vænta þess að fá boð í bólusetningu strax í upphafi næsta árs.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að bólusetningin verði vel undirbúin
„Þetta er eins og með aðrar bólusetningar val. Það er rosalega mikilvægt að vanda vel til framkvæmdarinnar.
Sigurður Kári Árnason, yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins, sagði á fundinum að sóttvarnayfirvöld þurfi lögum samkvæmt að veita öllum og þar með talið börnum bestu hugsanlegu heilbrigðisþjónustu sem völ væri á. Þar sem bóluefni væri til gegn sjúkdómnum sem ávinningur væri talinn af væri eðlilegt að bjóða upp á það.
„Ef við myndum ákveða að bjóða börnum í þessum aldurshópi ekki upp á bólusetningu þá er það líka pósitíf ákvörðun sem að við bærum þá ábyrgð á ef að það gerðist að börn færu að veikjast í þessum aldurshópi sem að við hefðum getað varið. Þannig að þetta er jafnvægi þarf alltaf að stíga.“