Maðurinn var sakfelldur fyrir brotið í Héraðsdómi Vesturlands í nóvember í fyrra en ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum til Landsréttar. Samkvæmt dómi héraðsdóms braut maðurinn umferðarlög með því að hafa í september 2019 ekið sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna bílnum vegna áhrifa áfengis. Maðurinn mældist með 2,69 ‰ í blóði. Maðurinn hafnaði utan vegar við Lyngholt í Hvalfjarðarsveit áður en lögregla náði honum.
Hálfu ári síðar, í maí 2020 stöðvaði lögregla manninn á Snæfellsvegi, og mældist hann þá með 1,82 ‰ í blóði. Maðurinn var þá sömuleiðis ekki með ökuréttindi.
Maðurinn játaði brotin fyrir dómi og á hann að baki nokkuð samfelldan sakaferil sem nær aftur til ársins 2006. Hann hefur á bakinu þrettán dóma fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum.
Þá hefur maðurinn verið margítrekað verið fundinn sekur um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Maðurinn var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í héraði og var sviptur ökurétti ævilangt. Þá var honum gert að greiða tæpar 115 þúsund krónur í sakarkostnað.
Landsréttur þyngdi fangelsisdóminn um ellefu mánuði.