Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, lagði til á fundi sínum í gær að notast yrði við sama fyrirkomulag í kosningunum í vor og var gert árið 2018, þar sem efnt var til prófkjörs um hver myndi leiða lista flokksins í borginni. Þá var skipuð kjörnefnd til að raða í önnur sæti listans.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir tillöguna og segist frekar hlynnt almennu prófkjöri.
„Mér finnst kannski ekki sérstaklega sterkt ef við ætlum að fara inn í annað kjörtímabil og vera átta ár borgarfulltrúar sem hafa ekki sótt umboð til flokksmanna,“ segir Hildur.
Hún segist undrandi yfir niðurstöðu Varðar og segist skynja það hjá flokksmönnum að þau vilji frekar almennt prófkjör.
„Við erum lýðræðislegur flokkur og við höfum farið lýðræðislegar leiðir til að velja fólk á okkar lista og þannig tel ég rétt að við höfum það áfram,“ segir Hildur. „Þetta var einhver tilraun síðast, gott og vel, en ég held að það sé ekki gott að við förum í þetta aftur.“
Hún bendir á að fulltrúaráð eigi eftir að samþykkja tillöguna.
„Það verður bara að koma í ljós hver niðurstaðan verður en ég skora á Sjálfstæðismenn að styðja mun fremur almennt prófkjör og boða bara til öflugs prófkjörs í febrúar og nota það sem slagkraft inn í öfluga kosningabaráttu,“ segir Hildur.
Ekki frambjóðendur sem stjórna
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, er þó á öðru máli en Hildur. Hann segir að Vörður ráði leikreglunum í prófkjörinu og þannig eigi það að vera.
„Hér er þessi aðferð rökstudd með því að það séu skýrar línur og ég horfi bara á það að grasrótin er með þessa tillögu og hún í rauninni á að ráða hvernig stillt er upp á lista en ekki frambjóðendur,“ segir Eyþór.
Hann segist þó skilja að skiptar skoðanir séu á fyrirkomulaginu en bendir á að um prófkjör sé að ræða engu að síður.
„Þannig ég held að það sé jákvætt að flokksmenn fái að velja. Þarna er farin sú leið að velja um efsta sætið og það er gott að fólk fái þá möguleika að kjósa um það, það er jákvætt. En það eru alltaf skiptar skoðanir um allt í pólitík,“ segir Eyþór.
„Það er eðlilegt að þeir sem ákveða hvernig reglurnar eru ákveði það en frambjóðendur fari síðan bara eftir því.“