Landsréttur kvað upp dóm sinn klukkan tvö í dag en málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember í fyrra. Þar var Jón Páll dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi og jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola 2,5 milljónir króna í miskabætur sem Landsréttur breytt í tvær milljónir króna.
Málið komst í fréttir í ársbyrjun 2018 þegar Jóni Páli var sagt upp störfum sem leikhússtjóri. Nokkrum vikum fyrr hafði hann tilkynnt að hann ætlaði að hætta í mars 2018 og vísaði þá til fjárhagsskorts hjá leikhúsinu. Stjórnin lýsti yfir vantrausti í janúar og hætti hann störfum. Í ljós kom svo seinna að hann hafði verið sakaður um nauðgun tíu árum fyrr.
Samkvæmt dómnum átti atvikið sér stað í ágúst árið 2008 á hótelherbergi erlendis. Grófar lýsingar eru í dómi af ofbeldinu sem Jón Páll var ákærður fyrir. Hann var að lokum ákærður og dæmdur fyrir ofbeldi og ólögmæta nauðung.
Fram kemur í dómi Landsréttar að Jón hafi kastað sér á konuna þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu og haldið henni þar fastri. Í átökum hafi hún svo fallið á gólfið hafi hann aftrað henni að standa á fætur með því að grípa í fótlegg hennar svo hún skall harkalega með hné í gólfið og datt á bakið. Þá hafi hann sett hné í bringu hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut stóran marblett af.
Konunni hafi svo tekist að skríða upp í rúmið en Jón Páll hafi elt hana, lagst ofan á hana og hafið við hana samræði án samþykkis. Hún hafi meðal annars hlotið marbletti og sár á ýmsum stöðum, rispur og núningssár auk sprunga í slímhúð við leggangaop.
Viðurkenndi ofbeldið á Messenger
Konan leitaði daginn eftir á neyðarmóttöku þar sem myndir voru teknar af áverkunum. Í niðurstöðukafla skýrslu læknis segir meðal annars að hún hafi gefið greinargóða sögu, verið dofin og tætt og aum um allan líkama og í kynfærum.
Jón Páll neitaði sök hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Hann kannaðist þó við að hafa gist inni á hótelherbergi konunnar umrædda nótt en sagðist ekkert muna vegna áfengisáhrifa. Þá hafi hann enga áverka séð á konunni morguninn eftir og ekkert óeðlilegt hafi verið í fari hennar að hans sögn.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sagðist hann muna slitrótt eftir atvikum næturinnar. Hann myndi til dæmis eftir að þau hefðu legið saman og eftir einhverju brambolti, þau hafi þá dottið á milli rúmanna. Hann hafi þá litið á samskipti þeirra um nóttina sem framhjáhald, ekki ofbeldi.
Í gögnum málsins lágu fyrir samskipti á Messenger milli Jóns og konunnar þar sem hann hafði gengist við að hafa beitt hana ofbeldi og brotið á henni gróflega. Sagðist hann þá hafa sótt sér sálfræðiaðstoðar í kjölfarið að tilhlutan konunnar.
Framburður konunnar fyrir dómi var þá metinn trúverðugur, hún hafi verið samkvæm sjálfri sér og hefði framburður hennar hlotið stoð í gögnum málsins og framburði vitna í málinu.