Áður en flautað var til síðari hálfleiks gengu dómarar leiksins til Arons Rafns Eðvarðssonar, markmanns Hauka, þar sem hann sat, hinn rólegasti, á varamannabekk Hauka og sýndu honum rauða spjaldið.
Aroni og öllum öðrum til mikillar furðu en hægt er að sjá atvikið í Youtube útsendingu frá leiknum.
Samkvæmt heimildum handbolti.is var þjálfurum Hauka gefin sú skýring frá dómurum leiksins að Aron Rafn hafi verið harkalegur í fasi þegar hann gekk inn í salinn eftir að Haukarnir höfðu klárað hálfleiksræðu sína inn í búningsklefa sínum í leikhléi.
Dómurum leiksins fannst Aron til að mynda opna dyr inn í salinn á ógætilegan hátt.
Hreint ótrúlegar skýringar frá dómaraparinu sem kemur frá Bosníu.
Haukar töpuðu leiknum með tveggja marka mun en liðin mætast í síðari viðureign sinni að Ásvöllum í Hafnarfirði um næstu helgi.