Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og munurinn á liðunum varð alrei meiri en tvö mörk. Teitur og félagar höfðu frumkvæðið fyrri hluta hálfleiksins, en voru svo að elta seinni hlutann. Þegar gengið var til búningsherbergja var allt jafnt, 13-13.
Eftir örfáar mínútur af því sama í seinni hálfleik tóku Teitur og félagar öll völd á vellinum og skoruðu sex mörk í röð. Eftir það var ekki aftur snúið og gestirnir í Flensburg unnu öruggan átta marka sigur, 28-20.
Teitur Örn skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg, en liðið er nú með sjö stig í fjórða sæti riðilsins, líkt og PSG. Dinamo Búkarest situr hins vegar í neðsta sæti riðilsins með fjögur stig.