Eruði mikil jólabörn?
Jú, það halda nú þær vinkonurnar Brynja, Kristín og Sigrún, úr Seljaskóla. En vinkona þeirra Rut getur ekki tekið undir það: „Ég myndi ekki segja það.“
En kemstu í jólaskap þegar það er orðið svona jólalegt í skólanum?
„Já.“

Og það skal engan undra því í Seljaskóla má með sanni segja að jólaandinn sé kominn á kreik, nú þegar 31 dagur er til jóla.
Leitast við að bæta við töfrana
Því til sönnunar er jólabókahornið sem búið er að setja upp á skólabókasafninu. Fréttastofa leit þar við í dag og spjallaði við krakkana og þann sem ber ábyrgð á þessu metnaðarfulla verkefni, bókasafnsfræðinginn Dröfn Vilhjálmsdóttur.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig er umhorfs í Seljaskóla:
„Sko, mér finnst skólabókasafnið vera svona töfrandi staður og ég er alltaf að leitast við að bæta við töfrana og mig langar eiginlega að þegar börnin koma inn á skólabókasafnið þá séu þau eiginlega að koma bara inn í ævintýralega bók strax,“ segir Dröfn.
Ert þú sjálf jólabarn?
„Ég er dálítið jólabarn sjálf. Það hlýtur eiginlega að vera,“ segir hún og bendir í kring um sig á vel skreytt jólabókahornið. „Þannig ég er farin að hlakka til jólanna.“

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dröfn tekur sig til og skreytir safnið fyrir krakkana.
Þannig má eiginlega segja að Dröfn hafi toppað sig fyrir hrekkjavökuna þar sem öllu var tjaldað til, meira að segja reykvél.

Ímyndunarafl Drafnar ýtir undir lestraráhuga barna
Það leynir sér allavega ekki að krakkarnir eru hrifnir af Dröfn og hennar stórkostlegu skreytingum.
Haldiði að þið lesið meira fyrir vikið? spyrjum við annan vinkvennahóp á safninu, þær Rannveigu, Kristínu, Stellu Björk og Aþenu.
„Já, sérstaklega jólabækur,” segja þær.

„Mér finnst bara mjög gaman hvernig Dröfn er svona með ímyndunarafl og gerir alltaf svona á jóla og hrekkjavökunni. Þá skreytir hún mjög mikið og það er bara mjög gaman. Þá fær maður svona meiri áhuga á bókum,” segir Stella Björk.
Og á meðan krakkarnir bíða spenntir eftir jólunum og telja niður dagana geta þeir drepið tímann með góðum jólabókalestri í snjóhúsinu í jólabókahorninu í Seljaskóla.
