„Í upphafi ætluðum við alltaf að fara aftur til Íslands en við erum bara svo ánægð hérna. Þessi fallega borg er mitt heimili,“ segir Guðmundur Felix í samtali við franska miðilinn France3, sem fékk að fylgjast með degi í endurhæfingu Guðmundar.
Hægt er að horfa á stutt myndskeið sem sýnir daglega endurhæfingu Guðmundar í myndbandi neðst í frétt France3.
Guðmundur undirgekkst aðgerð þar sem á hann voru græddir handleggir í byrjun þessa árs og hefur verið duglegur að birta færslur á Facebook þar sem hann sýnir ferlið og árangur sinn í endurhæfingunni.
Að hans sögn fer honum fram með hverjum deginum sem líður. „Neglurnar vaxa mjög hratt og hárin farin að aðlagast mér. Hárin á handleggjunum er núna orðið eins og öll hin líkamshárin mín,“ segir hann.
Í myndbandinu má sjá hvernig hann er farinn að fá meiri tilfinningu í höndina og fingurna þó enn sé nokkur vinna eftir til að virkja almennilega taugaendana þar. Hann lyftir þar vínglasi að vörum sér og nær að beita skeið.