Þetta mun þó ekki leysa mönnunarvandann enda ekki hægt að ráða inn 200 nýja erlenda starfsmenn inn á spítalann í einu.
Sýnd veiði en ekki gefin
Landspítalinn er kominn í viðræður við norrænar ráðningarskrifstofur, sem ganga vel.
„En þetta er náttúrulega bara, eins og gefur að skilja, sýnd veiði en ekki gefin vega þess að hjúkrunarfræðingar eru eftirsótt vinnuafl ekki bara hér á Íslandi heldur líka í öðrum löndum,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítalans.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beðið vestræn ríki sérstaklega um að vera ekki að laða til sín hjúkrunarfræðinga og annað fagfólk frá öðrum heimsálfum.
„Það er nákvæmlega þess vegna sem við gerum það að leita á norræna ráðningarskrifstofu en ekki annað. Vegna þess að við skiljum mjög vel þetta að vera ekki að sækja hjúkrunarfræðinga í löndum þar sem er skortur á hjúkrunarfræðingum og launin töluvert mikið lægri og vera að kippa fótunum undan því heilbrigðiskerfi,“ segir Guðlaug.

Hún segir algeran skort á faglærðu fólki á Íslandi og að þess vegna sé leitað út. Það þurfi tvö hundruð nýja hjúkrunarfræðinga til að spítalinn geti sinnt verkefnum sínum eðlilega.
Verða að kunna íslensku
„Og það að fara og ráða í gegn um ráðningarskrifstofu erlendis frá fyllir aldrei upp í þann kvóta ef maður getur orðað það þannig - bara alls ekki. En það myndi hjálpa okkur sannarlega,“ segir Guðlaug.
Enda sé ekki hægt að taka á móti svo mörgum erlendum nýliðum í einu; þeir þurfi að fara í gegn um ákveðið ferli til að fá hjúkrunarleyfi á Íslandi og læra íslensku til að mega starfa á spítalanum.
„Þú verður að skilja sjúklingana, númer eitt, tvö og þrjú. Og þú þarft að geta gert þig skiljanlegan á móðurmálinu, það er nú þannig. Og við gerum kröfu um það að hjúkrunarfræðingar hafi lágmarkskunnáttu í íslensku.“