„Ég hafði frétt í gegnum mentor minn hjá Kötlu Nordic að Advania á Íslandi hafi lengi unnið að þessum málum og einmitt þurft að takast á við svipaða áskorun til að fá fleiri konur inní tæknistörf,“ segir Áslaug Gunnarsdóttir aðspurð um það hvernig það kom til að Saxo Bank í Kaupmannahöfn leitaði ráða hjá Advania á Íslandi um aðgerðir til að fjölga konum innandyra hjá sér.
„Viðtökurnar voru mjög jákvæðar, en eftir á að hyggja sá ég eftir að hafa ekki fengið enn fleiri frá okkur á fundinn og hlusta á Ægi og Þóru segja frá þessum ótrúlega flottu hlutum sem þau hafa unnið að á síðustu árum,“ segir Áslaug.
Í dag og í gær segir Atvinnulífið frá Kötlukonum á Norðurlöndunum, íslenskum áhrifakonum sem margar starfa hjá eftirsóttustu vinnustöðum Norðurlandanna og hafa meðal annars sótt í reynslubrunn íslenskra fyrirtækja þegar kemur að verkefnum eins og jafnréttismálum.
Þegar hugmyndin vaknaði

Áslaug er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. frá Copenhagen Business School í Applied Economic sand Finance.
Áslaug starfar sem Senior Manager hjá Saxo Bank í Kaupmannahöfn. Til Danmerkur flutti hún árið 2013 þegar hún fór í meistaranám.
Sama ár fór hún í nemastarf hjá Saxo Bank, en Saxo Bank er alþjóðlegur fjárfestingarbanki.
Eftir nám, var hún ráðin í fullt starf og hefur starfað þar síðan.
Hjá Saxo Bank hefur Áslaug sinnt því starfi síðastliðin tvö ár að starfa í teymi innan áhættustýringar bankans þar sem hún er ábyrg fyrir að meta og greina eiginfjárþörf bankans og ráðleggja yfirstjórn bankans í öllu sem því viðkemur.
En hvers vegna datt þér í hug að leiða Saxo Bank og Advania saman?
„Í byrjun þessa árs ákvað Saxo Bank að auka fókus á jafnréttismál innan bankans og var sett af stað stórt verkefni þvert á bankann til að skoða þessi mál á markvissan og skýran hátt,“ segir Áslaug.
Verkefnið náði bæði til kynjajafnréttis innan bankans og utan. Til dæmis í ráðningum og stöðuhækkunum en eins því að reyna að fjölga kvenkyns viðskiptavinum og fá fleiri konur til að fjárfesta.
Áslaug sýndi frumkvæði og sóttist eftir því að taka þátt.
Síðan þá, hefur hún unnið að þeim hluta verkefnisins sem snýr að kynjajafnrétti og þátttöku, sem á ensku kallast „divisersity and inclusion.“
„Innan bankans sem hefur verið áhugavert ferli,“ segir Áslaug.
Áhrifaríkt að hlusta á karlkyns forstjóra ræða um jafnrétti
Þar sem Saxo Bank er fjármálatæknifyrirtæki starfa þar mjög margir í upplýsingatækni. Sami vandi virðist þó vera í Danmörku og á Íslandi: Það reynist oft erfitt að fá konur í tæknigeirann.
Áslaug vissi hins vegar að á Íslandi hefði ýmislegt verið gert til að laða að konur. Í framhaldi af því að fá upplýsingar um að Advania væri eitt þeirra, hafði hún samband við Advania.
„Þau hjá Advania voru áhugasöm um að miðla sinni reynslu og settum við upp fund með forstjóra Advania, Ægi Má Þórissyni og Þóru Rut Jónsdóttur, sjálfbærnisérfræðing hjá þeim sem og yfirmann ráðninga hjá Saxo Bank,“ segir Áslaug og bætir við:
Þau sögðu okkur frá reynslu sinni í þessu málum sem var mjög áhugavert og þá sérstaklega áhugavert að heyra karlkyns forstjóra tala á þennan hátt um þessi mál sem var virkilega áhrifaríkt.“
Á fundinum komu Ægir Már og Þóra með skýr dæmi um verkefni sem Advania hafði unnið að til að fjölga konum í tæknistörfum.
Aðgerðir Advania til Saxo Bank
En eitt er að heyra af góðum hugmyndum, annað er að koma þeim í framkvæmd.
Það jákvæða var þó að viðtökur innan Saxo Bank voru mjög góðar og segir Áslaug að áheyrendum fundarins með Ægi Þór og Þóru hafi hreinlega fundist árangur Advania aðdáunarverður.
Er nú svo komið að starfshópurinn innan jafnréttisverkefnisins hjá Saxo Bank vinnur nú að því að jafna hlut kvenna í upplýsingatæknihluta bankans, með reynslu Advania að leiðarljósi.
Ég tel víst að Ísland hafi margt fram á að færa í þessum málum, meira en fólk á Íslandi kannski gerir sér grein fyrir. Mín upplifun er sú að umræða og samfélagið í heild sé nokkrum árum á undan Norðurlöndunum, og reynsla fyrirtækja heima geti komið öðrum fyrirtækjum erlendis til góðs,“
segir Áslaug og vísar þar til umræðu um það hvers vegna jafnrétti er mikilvægt, hvað hefur reynst vel og hvernig er best að nálagst þessi mál.
Þá segir Áslaug MeToo bylgjur líka hafa haft áhrif, til að mynda öflug MeToo bylgja í Danmörku í fyrra.
„Það hefur mikið gerst bara á síðustu tveimur árum í Danmörku í kjölfarið á MeToo bylgju sem reið yfir í ágúst 2020 og hefur umræðan þroskast talsvert síðan þá. Það er því gott að geta sótt í tengingar heima fyrir og miðlað reynslu frá Íslandi hingað.“