Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum sem Fréttablaðið hefur undir höndum og fjallar um í dag.
Þar segir að sjö af ellefu áhættuþáttum séu metnir rauðir, sem tákni óviðunandi áhættu sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar. Þá er vitnað í niðurstöðukafla þar sem segir að: „…núverandi stjórnarhættir hafa skapað óæskilegan starfsanda sem ógnar öryggi og heilsu starfsfólks.“
Í blaðinu kemur einnig fram að öll atriðin tengist stjórnun stofnunarinnar með beinum eða óbeinum hætti og að meirihluti starfsfólks hafi lýst yfir vantrausti á hendur forstjóranum.
Að auki kemur fram í matinu að helmingur starfsfólks telji sig hafa orðið vitni að eða upplifað einelti, kynferðislega, kynbundna áreitni eða of beldi á vinnustað.
Í könnun ráðuneytisins frá í sumar kom fram að þrettán prósent starfsmanna stofnunarinnar hafi orðið fyrir einelti í starfi og 25 prósent orðið vitni að einelti á vinnustað. Í sömu könnun kom fram að 61 prósent starfsmanna beri ekki traust til forstjórans Arnórs Guðmundssonar og að 60 prósent beri ekki traust til yfirstjórnar stofnunarinnar. 98 prósent starfsmanna svöruðu könnuninni.