Það vakti nokkra athygli þegar Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, skipaði Gunter í embætti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Gunter hafði enga reynslu af utanríkisþjónustu en er virkur meðlimur í Repúblikanaflokknum, auk þess að vera húðsjúkdómalæknir.
Gunter var sendiherra hér frá 2019 til janúar á þessu ári. Var hann mjög umdeildur, ekki síst eftir að fregnir bárust af því að hann vildi fá að bera byssu hér á landi.
Í skýrslu innra eftirlitsins segir að Harry Kamian, mannsins sem tók við stjórn sendiráðsins af Gunter hafi beðið mikið verk. Þannig er Kamian sagður hafa þurft að eyða miklu púðri í að bæta starfsandann í sendiráðinu sem versnaði til muna í sendiherratíð Gunter.
Er Gunter sagður hafa stjórnað sendiráðinu með ógnarstjórn, auk þess sem að hann hafi hótað með lögsóknum þeim sem gáfu til kynna að þeir væru ósammála honum eða færu ekki hans óskum.
Samskipti ríkjanna í molum vegna Gunters
Þá er Kamian einnig sagður hafa þurft að einbeita sér að því að endurbyggja samskipti Íslands og Bandaríkjanna, sem hafi hrakað mjög í sendiherratíð Gunters. Er undirráðherra í ráðuneytinu meðal annars sagður hafa skipað Evrópu- og Evrasíu skrifstofu ráðuneytisins að sjá til þess að beint samband væri haft við íslenska utanríkisráðuneytið til að tryggja eðlileg samskipti á milli ríkjanna.
Gunter er einnig sagður hafa fyrirskipað að öll samskipti við íslensk stjórnvöld færu í gegnum sig auk þess sem hann hvatti undirmenn sína til að eiga í sem minnstum samskiptum við íslenska tengiliði sína.