Viðmælendur AP sögðu meðal annars mikilvægt að fólk út um allan heim léti til sín heyra og sendu ráðamönnum skýr skilaboð um að lítilsháttar breytingar væru ekki nóg. Þá væri ekki hægt að treysta því að ráðmenn stæðu við yfirlýsingar sínar.
Í Istanbúl komu tugir saman í einu verslunarhverfa borgarinnar. Þar sagði Kadriye Basut, 52 ára, sér annt um framtíð barna sinna.
„Ég vil að börnin mín lifi á fallegri plánetu. Ekki bara börnin mín, heldur öll börn; tré, fuglar, plöntur og allt fólk. Við verðum að skilja eftir okkur fallega plánetu. Börnin okkar og jörðin verðskulda það. Við sjáum að þjóðarleiðtogarnir eru ekki að gera neitt. Þeir segja bara bla bla bla.“
Í Varsjá í Póllandi kvað hins vegar við annan tón.
Þar komu hundruð meðlima verkalýðsfélaga í orkuiðnaði saman og beindu spjótum sínum að kunnuglegum óvini ráðandi afla Í Póllandi; Evrópusambandinu og áætlunum þess um að ríki bandalagsins dragi úr og hætti síðan brennslu kola til orkuframleiðslu.