Gunnar Steinn átti frábæran leik þegar Stjarnan vann Val í toppslag Olís deildar karla en hann var þá með sex mörk og níu stoðsendingar.
Stefán Árni vildi fá að vita hvernig Gunnar Steinn sér landsliðsferil sinn en hann á að baki 45 landsleiki fyrir Ísland.
„Það er kannski það sem maður er stoltastur af. Ég fékk að vera með í síðasta verkefni og var þá spurður hvort ég vildi gefa kost á mér. Mér fannst það ekki vera spurning við hæfi. Á öllum ferli var alltaf mitt efsta markmið að vera í landsliðinu,“ sagði Gunnar Steinn.
„Ég er mjög stoltur af þessum landsliðsferli og ég fékk að taka þátt í nokkrum stórmótum. Ég kom seint inn og óvænt, kom bakdyramegin inn. Þetta var frábær upplifun,“ sagði Gunnar Steinn.
„Í fyrsta landsleiknum þá spiluðum við í Álaborg á móti Noregi og þá sagði Kári Kristján við mig: Gunni, þetta er eina liðið þar sem þú elskar að sitja á bekknum. Það er alveg rétt hjá honum því það er allt annað að sitja á bekknum í landsliðinu heldur en í félagsliði,“ sagði Gunnar Steinn.
Það má heyra þetta viðtalsbrot úr Seinni Bylgjunni Extra hér fyrir neðan.