Skoðun

Hógværðin og Halldór Benjamín

Flosi Eiríksson skrifar

Í vinnumarkaðshagfræði var oft talað um að launastig aðlagist þannig að framboð og eftirspurn vinnuafls nái jafnvægi. Lægri laun hljóti því að ýta undir hærra atvinnustig. Nóbelsverðlaunin þetta árið voru veitt hagfræðingum sem rannsökuðu áhrif hækkunar lágmarkslauna á atvinnustig í Bandaríkjunum og sáu að hækkun lágmarkslauna fjölgaði störfum.

Raunveruleikinn var nefnilega flóknari en í gömlum kennslubókum. Þetta endurspeglast líka í gömlum hugmyndum Samtaka Atvinnulífsins um að atvinnuleysistryggingar eigi að vera sem lélegastar til að hægt sé að svelta fólk til vinnu. Þar endurspeglar raunveruleikinn heldur ekki kenningarnar. Í raun er það að koma betur í ljós að góðar atvinnuleysistryggingar hvetja til betri ráðninga og atvinnuþátttöku. Þetta birtist skýrt í Bandaríkjunum þar sem gríðarlegur skortur er á vinnuafli sökum áratuga stöðnunar í launaþróun.

Í svargrein sem Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri SA, skrifaði hér á Vísi við stuttri grein sem ég skrifaði hér um Nóbelsverðlaun í hagfræði þetta árið telur hann að ég sé að draga of sterkar ályktanir af niðurstöðu Nóbelsnefndarinnar, og alls ekki megi draga þá ályktun að hækkun lágmarkslauna leiði ekki til atvinnuleysis og gagnrýnir síðan einstök atriði í rannsókninni og bendir á aðferðaleg atriði sem hann telur rýra gildi hennar.

Minnir það um margt á Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem sagði það í stjórnmálaumræðum þegar við Halldór vorum að alast upp að ,,venjuleg efnahagslögmál giltu ekki á Íslandi“. Þennan tón þekkjum við vel í þjóðfélagsumræðunni að við séum svo sérstök, á Íslandi eigi ekki almennar reglur við eða lögmál sem annars staðar eru viðteknar og viðurkenndar. Félagar Halldórs í Viðskiptaráði náðu fullkomlega utan um þennan hrokafulla þankagang þegar það gaf út yfirlýsingu korter í hrun að Íslendingar hefðu ekkert að sækja eða læra af hinum Norðurlöndunum! Samfélög sem venjulega raða sér í efstu sætin á margvíslegum listum þar sem metin eru gæði samfélaga.

Aldrei svigrúm til launahækkana!

SA hafa ekki í seinni tíð (og trúlega aldrei) talið að það væri innistæða fyrir launahækkun af neinu tagi. Það er ekki svigrúm í dag, var það ekki 2016 og heldur ekki 2013 þegar raunlaun hröpuðu í kjölfar óðaverðbólgu. Nú er það meira að segja þannig að í kjarasamningi milli SA og SGS eru lægstu taxtarnir svo skammarlega lágir að samið er um sérstaka uppbót til að allir nái lágmarkstekjum. Samt mátti alls ekki hækka lægstu taxtanna, eða fella þá brot – jú út af hverju, ,,hætta væri á að að myndi auka atvinnuleysi“ leiða til ,,fjöldaatvinnuleysis“ og fækka ,,fjölbreyttum byrjunarstörfum“ fyrir þá sem ,,vilja tækifæri til að vinna þó kaupgjaldið sé ekki hátt í fyrstu.“

Umrædd rannsókn sem Nóbelsverðlaunanefndin sá ástæðu til að verðlauna gengst á hólm við þessa gömlu frasa Halldórs og skoðanabræðra hans, þessa gömlu rómantík um ameríska drauminn – um félausa innflytjandann sem stígur á land í Manhattan, vinnur erfið og hættuleg láglaunastörf, er iðin og trúr og fær síðan tækifæri og kemst í álnir og eignast hús í úthverfinu og tvo bíla. Raunveruleiki þeirra sem eru á þessum lágu launum er ekki eins rómantískur, það er allt of líklegt að þau hreykist milli leiguíbúða, börnin þeirra fá ekki að njóta skipulegs tómstundastarfs, heilsan eru verri, eins og margar rannsóknir sína og þau lifa skemmur.

Því var maður að vona að verðlaunin að þessu sinni yrði til þess að sumir myndu endurskoða viðteknar hugmyndir og velta fyrir sér í alvöru hvort þessi tugga um að það sé ríku samfélagi eins og hér á landi lífsnauðsýn að halda hluta af þjóðinni í fátækt á skítakaupi.

Það virðist ekki hafa gerst hjá Halldóri, heldur metur hann svo að hann viti betur en Nóbelsnefndin, og geti metið hagfræðirannsóknir betur en einhverjir svíjar. Það er út af fyrir sig gleðiefni að sjá hógværð og minnimáttarkennd er ekki farin að plaga Halldór svo merkjanlegt sé.

Verkefni okkar hinna er hins vegar að skoða hvernig nýta má rannsóknir í hagfræði og á öðrum sviðum til að skilja betur gangverk vinnumarkaðarins, skipta verðmætunum með réttláttari hætti, tryggja öllum örugga afkomu og hækka lágmarkslaunin.

Höfundur er framkvæmdastjóri Starfsgreinasamband Íslands.


Tengdar fréttir

Flosi og Nóbels­verð­launin í hag­fræði

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS) skrifaði nýlega ágætis grein hér á Vísi og óskaði eftir vitrænni umræðu um hvernig mætti bæta hag landsmanna. Það er auðvelt að verða við þeirri bón.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×