Viðskipti innlent

Leita að nýju hús­næði fyrir Vín­búð í mið­borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Vínbúðin í Austurstræti þykir óhentugt húsnæði þar sem lagerinn sé á neðri hæð og flutningar til og frá verslun eru erfiðir.
Vínbúðin í Austurstræti þykir óhentugt húsnæði þar sem lagerinn sé á neðri hæð og flutningar til og frá verslun eru erfiðir. Vísir/Kolbeinn Tumi

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur auglýst eftir leiguhúsnæði í miðborg Reykjavíkur fyrir verslun sem ætlað er að koma í stað þeirrar sem er til húsa í Austurstræti.

Í útboðslýsingunni er óskað eftir því að taka á leigu húsnæði fyrir um 400 til 600 fermetra verslun og afmarkast svæðið af Snorrabraut, Hverfisgötu, Tryggvagötu, Geirsgötu og til sjávar í norður. Leigutími húsnæðisins er allt að tíu ár.

Viðskiptablaðið hefur eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um tilfærsluna og verði lagt mat á það sem býðst. Hún segir verslunina í Austurstræti vera óhentuga, á tveimur hæðum þar lager sé á neðri hæð og að erfitt sé um flutninga til og frá versluninni.

Ekki er langt síðan ÁTVR lokaði verslun sinni í Borgartúni. ÁTVR hafði þá auglýst eftir húsnæði á svæðinu en ekki tókust samningar. Sigrún Ósk sagði í samtali við Vísi í tilefni af lokuninni að til lengri tíma væri stefnan sú hjá ÁTVR að vera með verslun á umræddu svæði. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar um framhaldið.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu í lok september sagði Sigrún Ósk að enn hafi ekki verið auglýst eftir nýju húsnæði á svæðinu og að engin ákvörðun liggi fyrir um hvenær það verði gert.


Tengdar fréttir

Loka Vín­búðinni í Borgar­túni

Vínbúðinni í Borgartúni verður lokað frá og með mánudeginum 22. febrúar og rekstri hætt í núverandi húsnæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×