„Virði Bitcoin var áður hæst í apríl síðastliðnum þegar það náði rétt tæpum 65 þúsund dölum, eða um 8,4 milljónum íslenskra króna. Virði myntarinnar hríðféll svo yfir sumarmánuðina, náði 30 þúsund dala lágmarki í júlí en náði nýju meti fyrr í vikunni, um 67 þúsund dölum.
En hvað veldur þessari sögulegu sveiflu nú?
„Bitcoin var skráð á amerískar kauphallir undir svokölluðu ETF-formerki sem þýðir að þetta hefur hlotið í raun og veru hæstu skráningu sem hægt er að hafa sem eignarflokkur,“ segir Kristján Ingi Mikaelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs.
Best að kynna sér málið áður en er fjárfest
Kristján segir ómögulegt að segja til um hvort nú stefni í mikla virðislækkun á ný. Það sem fari upp fari þó gjarnan aftur niður.
„Til lengri tíma er nánast öruggt, ef sagan heldur áfram að endurtaka sig, að Bitcoin haldi áfram að trenda svona upp.“
En rafmyntakapphlaupið er ekki allra. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri varaði við því fyrr á árinu að fólk keypti sér rafmyntir á borð við Bitcoin og líkti þeim við píramídasvindl. Kristján segir fólk alls ekki of seint að stökkva á Bitcoin-vagninn - en fara þurfi varlega.
„Ekki fara og kaupa Bitcoin án þess að vita neitt um þetta. Þetta er flókið og fjárfestingar eru flóknar. Það sem er best að gera er að kynna sér þetta, kaupa þetta í skömmtum einu sinni í mánuði, taka part af sparnaðinum sínum og taka þátt í þessu trendi. Því þetta er langtímabylgja sem er þarna í raun og veru að eiga sér stað og ekki horfa á þetta á lilum tímarömmum.“
Dæmi séu um að Íslendingar hafi efnast um hundruð milljónir - og jafnvel milljarða - af Bitcoin.
Átt þú Bitcoin sjálfur?
„Ég á Bitcoin sjálfur og eignaðist mitt fyrsta Bitcoin 2013, í febrúar. Og hef átt Bitcoin allar götur síðan og ég er ekki að selja Bitcoinin mín og mun ekki gera það,“ segir Kristján.