Dómsmálaráðherra Haítí greindi frá kröfu glæpagengisins 400 Mazowo í dag. Gengið er alræmt fyrir mannrán og að krefjast lausnargjalds fyrir gísla. Gengið rændi hópi kaþólskra presta í apríl. Þeim var sleppt á endanum en ekki er ljóst hvort að lausnargjald var greitt fyrir þá, að sögn breska ríkisútvarpins BBC.
Sextán trúboðanna eru bandarískir ríkisborgarar en einn er kanadískur. Í hópnum eru fimm karlar, sjö konur og fimm börn. Yngsta barnið er sagt tveggja ára gamalt. Fólkið er á vegum kristilegra hjálparsamtaka frá Ohio í Bandaríkjunum sem veitir börnum á Haítí húsaskjól, mat og föt.
Fólkinu var rænt þegar það kom úr heimsókn í munaðarleysingjahæli í bænum Ganthier, austur af höfuðborginni Port-au-Prince, á laugardag. Gengið ræður því sem það vill ráða á þeim slóðum.
Hvíta húsið sagði í gær að utanríkisráðuneytið og alríkislögreglan ynnu með yfirvöldum á Haítí að lausn málsins.
Glundroði hefur ríkt á Haítí undanfarin misseri. Forseti landsins var ráðinn af dögum í sumar og fleiri en 2.200 manns fórust í stórum jarðskjálfta í ágúst.