Þungunarrof er í reynd bannað eftir sjöttu viku meðgöngu með lögum sem tóku gildi í Texas í byrjun september. Þrátt fyrir að slíkt bann hafi fram að þessu verið talið stríða gegn stjórnarskrá leyfði Hæstiréttur Bandaríkjanna lögunum að taka gildi vegna lagatæknilegra álitamála.
Þingmenn í Texas sömdu lögin sérstaklega með það fyrir augum að erfitt yrði að fella þau úr gildi fyrir dómstólum. Það gerðu þeir með því að banna yfirvöldum í Texas að framfylgja banninu en fela í staðinn almennum borgurum að kæra hvern þann sem aðstoðar konu að fara í þungunarrof. Því sé óljóst hvenær og hvernig hægt sé að láta reyna á lögmæti laganna fyrir dómi.
Málið hefur velkst um fyrir dómstólum undanfarnar vikur. Dómsmálaráðuneytið krafðist þess að lögin yrðu felld úr gildi tímabundið og féllst dómstóll á hana á dögunum. Annað dómstig felldi þann úrskurð úr gildi. Nú hefur alríkisáfrýjunardómstóll hafnað kröfu ráðuneytisins um að ógilding laganna verði staðfest, að sögn Washington Post.
Reikna má með því að niðurstöðunni verði áfrýjað til hæstaréttar.
Í millitíðinni hefur þungunarrof nær algerlega lagst af í Texas sem er eitt fjölmennasta ríki Bandaríkjanna þrátt fyrir að enginn dómstóll hafi enn tekið efnislega afstöðu til þess hvort að lögin standist stjórnarskrá. Dómafordæmi hæstaréttar hefur tryggt konum rétt til þungunarrofs áður en fóstur er orðið lífvænlegt, venjulega fram að 22. til 24. viku meðgöngu.