Þetta kemur fram í frétt RÚV. Þar segir að þann 18. september hafi konan fengið alls tíu lyf sem hún átti ekki fá, meðal annars flogalyf, hjartalyf sem hægi á hjartslætti og blóðþrýstingslyf.
Að sögn aðstandenda, sem kjósa að koma ekki fram undir nafni, var konan flutt í eftirlit á bráðamóttöku sama dag og síðan aftur á Landakot um kvöldið. Segja þeir að konan hafi vart komist til sjálfrar sín eftir lyfjagjöfina nema stund og stund. Hún lést svo 23. september.
Ættingjarnir hyggjast ekki kæra atvikið. Landspítalinn staðfestir í svörum til RÚV að mistök hafi átt sér stað við lyfjagjöf. Ekki hafi verið talin ástæða til þess af hálfu spítalans að vísa málinu til landlæknisembættisins til rannsóknar að svo stöddu. Samkvæmt heimildum RÚV hefur ekkert komið fram innan spítalans sem bendir til þess að tengsl séu á milli mistakanna og andlátsins.